Articles

Print

UMÍ 2014 lokið

Þá er Unglingameistaramóti Íslands 2014 lokið. Mótinu lauk í dag með keppni í blandsvigi og boðgöngu. Óhætt er að segja að framkvæmd mótsins hafi gengið frábærlega, veðrið lék við okkur og hjálpaði til við að gera upplifunina eftirminnilega. Keppendur, þjálfarar og fararstjórar voru félögum sínum til sóma og lögðu sitt að mörkum til skapa frábæra stemningu yfir alla mótsdagana. Við í mótsstjórninni ákváðum strax í upphafi að reyna að fikra okkur inn á nýjar brautir hvað varðar umgjörð mótsins og teljum okkur hafa gert það og náð að setja upp glæsilegt mót frá setningarathöfn til mótsloka. Vonandi munu mótshaldarar framtíðarinnar halda áfram þeirri þróun því það er trú okkar að keppendurnir kunni vel að meta það og hafi haft gaman af því sem við gerðum hér um helgina. Að lokum viljum við þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu sín lóð á vogarskálarnar um helgina svo mótið mætti verða eins glæsilegt og raun ber vitni, án þeirra væri mótahald sem þetta ómögulegt.